Tuðblogg
ATH. Þetta blogg var skrifað í gær en þá vildi Blogger ekki leyfa mér að setja það á netið.
Áðan horfði ég á löggumann á mótórhjóli keyra beint yfir gatnamót, í veg fyrir mig sem var að fara að beygja, af akrein sem skýrt og greinilega er merkt sem beygjuakrein til hægri. Reyndar keyrir fólk meira og minna beint yfir af þessari akrein þannig að maður passar sig ná á þessu, en löggan, það finnst mér nú einum of.
Rétt áður þegar ég var að keyra yfir Hringbraut hina nýju, á grænu ljósi og af akrein sem til þess er gerð, ók einhver karl í veg fyrir mig. Ég lagðist að sjálfsögðu á flautuna, enda finnst mér alveg hreint óþolandi þegar fólk gerir þetta og ótrúlegt að ekki verði fleiri slys. Maðurinn horfði á mig eins og ég væri eitthvað skrýtin.
Þegar ég var svo að fara að beygja inn í mína ástkæru heimilisgötu, sem eins og allir vita er einstefnugata, mætti ég bíl þar á horninu og neyddist til að nema staðar til að klompa ekki bílinn "minn". Ég lagðist aftur á háværu Skoda-flatuna. Ungi maðurinn við stýrið varð reyndar frekar skömmustulegur og baðst afsökunar með miklu handapati og skemmtilegum svipbrigðum þannig að ég fyrirgaf honum eiginlega. Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sipti sem bíll keyrir þessa götu öfugt. Næstum á hverjum degi sé ég einhvern sem keyrir á móti einstefnunni. Í gær sá ég einn keyra hana öfugt, í fyrradag var næstum búið að keyra hana móður mína niður þar sem að hún gætti þess ekki að líta á móti einstefnunni áður en hún keyrði yfir götuna og á laugardaginn lenti ég í því að einhver strákskratti var næstum búinn að keyra á mig þegar hann beygði inn götuna á móti mér. Reyndar datt mér ekki í hug að víkja fyrir við komandi heldur bíbbaði og benti honum á "innakstur bannaður"-merkið. Hann brást reiður við og bíbbaði á móti. Hleypti mér þó framhjá en elti mig svo með flauti og látum.
Ég var að hugsa um að hringja í lögguna um daginn og biðja þá að fylgjast aðeins með því hvernig er ekið í þessari götu, bæði með tilliti til akstursstefnu og þess að það er 30 km hámarkshraði í hverfinu. Nú er ég hins vegar á báðum áttum fyrst að lögreglan fer ekki eftir umferðrarreglunum sjálf.
Kveðja, Gribban.
<< Heim