13 febrúar 2007

Fleiri, stærri álver?

Er ekki komið nóg af álverum í bili? Hvernig væri að bíða aðeins og sjá hvað gerist ef við byggjum ekki ný álver og stækkum ekki þau sem fyrir eru í nokkur ár. Held að það væri ekkert hræðilegt.

Vilja Íslendingar virkilega að efnahagur lands og þjóðar sé á valdi erlendra stórfyrirtækja sem geta pakkað saman og farið þegar og ef þeim hentar.

Skýrasta dæmið um slíkt er hótun Alcan um að hætta bara með álverið í Straumsvík fái þeir ekki í gegn stækkun. Þetta sýnir að þeir ætla sér að snúa upp á hendurnar á íbúum Hafnarfjarðar. Reyndar græðir Hafnafjarðarbær ekki mikið á því að hafa álverið í túnfætinum, en það er kannski best að láta liggja á milli hluta þar sem að talsmenn Alcan vilja frekar ræða mögulega tekjuaukningu bæjarins ef af stækkun og breytingum á sköttum og gjöldum álversins verður heldur en reikna með sama fyrirkomulagi áfram. Það er hins vegar ekkert sem tryggir íbúum bæjarins að breytingar verði gerðar ef álverið verður stækkað. Með því að tala um greiðslur til Hafnarfjarðar ef hitt og ef þetta eru talsmenn álversins að ljúga að þjóðinni. Alcan reyndi reyndar líka að ávinna sér hilli hins almenna borgara með mútum um jólin eins og frægt er orðið. Þótti mér þar heldur ómaklega vegið að heiðri Hafnfirðinga. Það verður að reikna með því að fólk láti ekki stórt mál eins og stækkun álvers ráðast af því að það fékk disk með Bó í jólagjöf.

Það er þó ekki framkoma Alcan sem fékk mig til að hripa þetta niður heldur að Geir H. Haarde sagði víst í Silfri Egils að hann gæti hugsað sér að sjá þrjú álver rísa hér á landi fljótlega. Talaði um á árunum 2015-2020. Þetta þykir mér ansi gróft.

Hvað gerist ef hann fær sitt fram? Hvað gerist ef öll álfyrirtækin fara að nota sömu aðferðir og Alcan; hótanir og mútur? Hvað gerist ef áliðnaðurinn dregst saman? Hvað með útblásturinn frá þessum álverum? Hvar á að fá raforkuna fyrir þau öll? Hvað með þensluna sem er víst á hinu litla Íslandi?

Á kannski að virkja bara út um allt? Hvað með komandi kynslóðir? Er virklega rétt að virkja ár sem nú þegar eru stór segull fyrir ferðamenn og skapa atvinnu án þess að þeim sé breytt á nokkurn hátt bara til að geta fengið eitt enn álverið?

Hvar á að draga línuna?

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS