(Upp)Deit-helgin mikla
Jæja. Helgin sem átti að fara í að læra frá upphafi til enda fór að stórum hluta í björgunaraðgerðir á tölvunni minni. Nú er búið að setja allt upp á henni aftur og "uppdeita" hið yndislega Windows XP stýrikerfi óslitið í hálfan sólahring til að það sé nú í lagi. Eins og gefur að skilja tók þetta talsverðan tíma frá náminu og olli einnig þónokkrum pirringi sem tók enn meiri tíma frá náminu.
Nú verð ég bara að trúa því að hún eigi ekki eftir að hiksta það sem eftir ef af próftíðinni og styðja mig með ráðum og dáð. Til að auka líkur á því breytti ég nafninu á henni úr "Ikke bruglige maskine" í "Lærufélaginn". Kannski líkar henni það betur.
Góðu fréttirnar eru samt þær að nú er ég að gera hluti sem ég var í örvæntingu að reyna að gera á milli grát- og hræðslukasta daginn fyrir lyfjafræðipróf í fyrra. Það er umtalsverð framför þar sem að nú er vika í prófið.
Síðasti kennsludagur fyrir próf er á morgun og það er ekki laust við að stressið sé að byrja að læsa sér í kroppinn. Það veldur því að ég er afskaplega meir og háð öðrum. Þetta veldur svo miklu álagi á sambýling minn að mamma hefur ákveðið að koma suður til að sjá mér fyrir fæði og fötum. Ja, ekki er öll vitleysan eins.
Allt virðist líka ætla að ganga upp með vinnu og ferðalög frá því eftir próf þar til næsta haust. Stefnan hefur nú verið sett á SA-Asíu upp úr miðjum apríl. Þar sem að við skötuhjú erum búin að skipta ansi oft um skoðun skal þó taka þessari ákvörðun með fyrirvara.
<< Heim