Ógæfa annarra eða mín eigin gæfa?
Í dag fór ég í Kringluna og keypti hinar ýmsu ónauðsynjar. Þegar ég var að bíða eftir strætó til að komast nú aftur heim með allt draslið kemur til mín strákur á aldur við mig. Hann spurði hvort ég ætti nokkuð kannski hundraðkall handa honum, hann væri nefnilega alveg á götunni.
Ég átti ekki hundraðkall en gaf honum klink-ruslið í veskinu mínu og einn strætómiða. Hann endurtók afsakandi nokkrum sinnum að hann væri alveg á götunni og að það væri ekki hægt að komast strax í meðferð. Hann var mjög kurteis og þakkaði kærlega fyrir sig. Ég sá að hann fór beint og bað konu sem var nálægt um pening. Svo labbaði hann í burtu.
Þetta skar mig í hjartað. Mér fannst ég kannast við kauða en held að það hafi bara verið af því að ég þekki nokkra sem eru akkúrat þessi týpa - eiga auðvelt með að detta í rugl og áfengi, þeir eru bara pínu heppnari en þessi. Þegar hann var horfinn fékk ég samviskubit. Kannski átti hann ekkert að borða, af hverju gaf ég honum ekki kleinurnar sem voru í pokanum hjá mér? Af hverju spurði ég ekki hvað hann héti? Af hverju spjallaði ég ekki við hann? Ég þurfti að vera hörð við sjálfa mig til þess að fara ekki og leita að honum.
Kannski eru allir að hugsa hvað ég sé vitlaus. Þessi gaur hafi bara verið að spila með mig og vantað pening fyrir næsta skammti af víni eða dópi. Kannski það. Kannski var þetta forfallinn dópisti. En það er fullt af fólki sem er í þessari stöðu. Á ekki neitt og er búið að brenna allar brýr að baki sér. Það þarf stundum ekki mörg mistök til að fara inn í vítahring sem endar í ræsinu.
Lífið er ekki sanngjarnt. Ég drekk vín, ég hef gert mistök og stundum hef ég eytt peningum í heimskulega hluti. Samt hef ég það gott. Ég á fjölskyldu og vini sem styðja mig gegnum súrt og sætt. Þess vegna sit ég í rólegheitunum heima hjá mér með fulla frystikistu og ískáp af mat, með tölvu, prentara, sjónvarp, DVD-spilara, vídjó, I-pod, gott rúm og skítnóg af fötum og skóm meðan þessi strákur sníkir peninga af ókunnugum.
<< Heim