21 apríl 2006

Gleðilegt sumar

Úff, hvað það er langt síðan ég hef bloggað. Af þeim sökum er frá allt of miklu að segja.

Rannsóknarverkefnið enn á sínum stað. Alltaf nóg að gera í því. Eigum bara eftir að fara í 4 bekki með spurningalistana og þá er allt komið í gagnaöflun. Þá mun tölfræði-hausverkurinn mikli byrja. Vildi að ég kynni eitthvað pínku pons í tölfræði, sem ég geri ekki. Fínt að það er til bók sem heitir "Statistics at square one". Vonandi reddar hún þessu.

Um páskana fór ég til Hollands á NECSE-ráðstefnu (North European Conference of Sexual Education) þar sem þemað var homo-, bi-, og transsexuality. Ferðafélagar mínir voru þeir Karl Erlingur og Ómar. Þetta var virkilega skemmtileg og fræðandi ferð. Við gistum í gömlu virki. Veggirnir voru meters þykkir og rimlar fyrir gluggunum. Fyrsta daginn var líka alveg ógeðslega kalt inni. Örugglega kaldara en úti. En ráðstefnugestir létu það ekki á sig fá heldur héldu ótrauðir áfram. Skemmtilegasta kvöldið var án efa þegar þemað var cross-dressing. Íslensku strákarnir "mínir" voru alveg æðislegir að hinum ólöstuðum.

Þegar ráðstefnunni lauk á sunnudag fórum við inn í Amsterdam. Að sjálfsögðu skelltu íslensku perrarnir sér í rauða hverfið. Við þræddum allar sex shops sem voru þar held ég og sáum hluti sem við, eða allavega ég, höfum ekki hugmynd um að væru til. Svona er maður nú saklaus! Það var svolítið sérkennileg upplifun að sjá hórurnar stilla sér upp í gluggunum. Samt fannst mér ennþá skrýtnara að sjá fólk labba með börnin sín í gegnum hverfið. Svo sem allt í lagi ef krakkarnir kippa sér ekkert upp við þetta en við mættum einni ca. 10 ára stelpu sem leið greinilega hræðilega þarna.

Þegar fyrstu umferð í Rauða hverfinu var lokið fórum við að hitta Svía, Dani og Pólverja sem voru með okkur á ráðstefnunni í einu af coffie shop-unum. Þar var setið í góðu yfirlæti í heila tvo tíma áður en við skelltum okkur út að borða á einhverjum stórfurðulegum indverskum veitingastað. Eftir matinn var tekin umferð tvö í Rauða hverfinu. Þá voru engin börn lengur á svæðinu og hóru-úrvalið mun meira. Þetta hverfi fór alveg með eina dönsku stelpuna. Hún ætlaði sko ekki að segja neinum að hún hefði verið þarna! Eftir þetta löbbuðum við óvart lengstu leið sem hægt var heim á hótelið okkar.

Eftir allan perraskapinn á sunnudeginum ákváðum við að vera menningarleg og fórum á Rigsmuseeum á mánudagsmorgninum. Það var satt best að segja alveg stórskemmtilegt. Enda í hróplegu ósamræmi við það sem við gerðum daginn áður. Restin af deginum fór svo bara í að rölta um og skoða mannlíf og búðir. Um kvöldið skelltum við okkur einu sinni enn í Rauða hverfið. Það var mjög fyndið að sjá muninn frá því kvöldinu áður. Miklu færri á ferli og dópsalarnir þ.a.l. miklu hærri prósenta af þeim sem voru þarna. Hefðum getað keypt nóg að alls kyns dóti hefðum við viljað það.

Á mánudagsmorgninum hófst svo ferðin heim sem tók um 12 tíma. Já, 12 tíma gott fólk. Þurftum nefnilega að fljúga fyrst til Stokkholms og skipta um flugvél þar. Takk kærlega Icelandair!

Þar með er þessari löngu ferðasögu lokið. Hefði getað skrifað mörgum sinnum meira en það er best að hlífa þeim sem hugsanlega lesa þetta blogg.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS