Hitt og þetta
Alveg er merkilegt hvernig tími sem á að fara í að gera ekki neitt fyllist alltaf af verkefnum. Ekki að það sé endilega slæmt. Er hvort sem er eitthvað gaman að liggja bara í leti?
Það er semsagt nóg að gera hjá mér. Rannsóknarverkefnið komið á fullt og ekki veitir af að taka Ástráðs-fjármál í gegn eftir slugsið í þeim málum í próftíðinni, já og reyndar mín eigin fjármál líka. Vinnan tekur líka tíma þó að hún sé ekki mikil.
Það er samt svo gott fyrir sálina að mæta í vinnuna mína og fá hrós eins og "þú hlýtur bara að vera engill" og "mikið ertu með fallegar tennur". Ekki á hverjum degi sem ég fæ að heyra þessi orð.
Fór á Læknaleika á föstudaginn. Mæting 3. ársins var hreint og beint skammarleg. Svo slæm var hún að ég endaði kvöldið á því að fá mér að borða með tveimur ungum mönnum af 1. ári. Reyndar tengdust piltur af 3. ári og stúlka af 1. ári mun sterkari böndum heldur en að borða saman. Alltaf gaman að því...
...tókst mér að gera einhverja forvitna?
<< Heim