01 mars 2006

Rotta í eldhúsinu!

Ég bý ein. Yfirleitt finnst mér það mjög gott. Þegar ég er í prófum er það samt slæmt. Þá vantar einhvern annan til sjá um allt sem ég gef mér ekki tíma til að gera.

Matur er sem betur fer ekki stórt vandamál. Fer bara til stóru systur og borða þar eða litli bróðir kemur með mat til mín. Fjölskyldan mín er yndisleg.

Það versnar í því þegar kemur að þrifum.

Það er rykteppi á öllum láréttum yfirborðum nema gólfinu. Þar er rykið meira svona í hrúgum ásamt hárunum af Myrru. (Hún ákvað nefnilega að þetta væri frábær tími til að skipta úr þykkum vetrarfeldinum yfir í þunnhærðari sumarfeld.) Gólf sem líta út fyrir að hafa verið skúruð síðasta árið eru fjarlægur draumur. Til fjarlægra drauma teljast líka hreint klósett og tóm óhreinataus-karfa.

Í síðustu viku dreymdi mig rottu. Hún var búin að setjast að í eldhúsinu mínu innan um allt draslið. Hún var mjög ljót og þrjósk, neitaði að fara og neitaði að deyja. Þó að mér finnist rotturnar frá Keldum bara sætar þá ofbauð mér algjörlega við tilhugsuninni um holræsarottu í eldhússkápunum. Ég vaskaði upp.

Kveðja úr skít og stressi,

Sibba tibba táfýla.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS