Jól, áramót og afmæli x2
Jæja, gleðileg jól börnin mín. Nei, bíddu aðeins við. Gleymdi að blogga öll jólin. Ég get samt allavega sagt gleðilegt ár þó svo að það sé ekki alveg glænýtt lengur.
Margt og mikið hefur auðvitað gerst síðan ég bloggaði síðast. Merkilegast er sennilega að ég fór í fyrsta skipti ekki norður um jólin. Lá bara í leti í Skeggjagötunni í marga, marga daga. Var meira að segja í fríi í vinnunni líka þannig að þetta var nú meira sukkið. Enda sést það alveg á manni, rúmmálið er orðið heldur meira en fyrir þessa miklu áthátíð. Þá er víst bara að reyna að minnka það aftur fyrir árshátíð.
Mér tókst líka að verða 25 ára. það var í fyrsta skipti sem ég upplifði afmælið sem ekki svo gleðilegan atburð. Fannst ég allt í einu bara orðin rosa gömul. Hálfþrítug! Óhugnarleg staðreynd. Dagurinn var samt skemmtilegur og góður. Fékk fjölskylduna í kaffi sem ég þurfti nánst ekkert að hafa fyrir því Hlífa mætti bara með allt dótið til mín. Gerist ekki mikið betra en það.
Í gær fór ég með ömmu gömlu til augnlæknis. Var gífurlega fúl þegar ég komst að því að læknirinn var ekki mættur þegar við komum kl. 8:30. Fyrstu tímar eru bókaðir kl. 8. Alveg hreint óþolandi helvíti. Biðin varð því rúmlega klukkutími. Aaaaarrrrg pirr! Loksins fékk samt sú gamla resept fyrir gleraugum og við Sjonni drifum okkur með gömlu hjónin í Gleraugnasöluna (sem er alveg örugglega besta gleraugnaverslun landsins) til að fá nú loksins ný gleraugu fyrir þau. Þeirri gömlu var strax færður stóll og þar sat hún eins og drottning og stjanað var við hana á alla kanta. Kristmundur sagði fyrirfram að ég ætti öllu að ráða því honum væri sama svo lengi sem þetta væri nothæft. Annað kom nú á daginn því að hann hafði sterkar skoðanir á lit, efni og stærð. Allt gekk þetta samt hratt og vel og allir fóru ánægðir út.
Í gær kom að því að ég ákvað að ég hefði ekki tíma til að gera allt. Ég dró mig því út úr Lýðheilsufélagi læknanema. Það var alveg hundfúlt en það er sennilega betra að vera með færri hluti á sinni könnu og geta þá gert þá almennilega.Í lokin vil ég óska honum Afa mínum Kibba til hamingju með 88 ára afmælið í dag. Ótrúlegt hvað karlinn er gamall.
Afi í sínu rétta umhverfi.
<< Heim