Tími breytinga
Skólinn er byrjaður og ég er hætt að vinna. Það fer ekki á milli mála. Próf í þar-þar-næstu viku. Það virðist við fyrstu sýn ekki svo slæmt. En það er í raun og veru alveg hræðilega skelfilegt. Hvernig fólk ákveður eiginlega svona lagað? Ég hef þjáðst af vaxandi prófleiða síðan í byrjun ágúst. Sniðugt svona loksins þegar ég fer ekki í sumarpróf. Það verður þó allavega gott að ljúka þessu af og fá loksins að fara inn á deildir, þó að ég kvíði nú örlítið fyrir grillinu sem á eftir að fara fram þar.
Skólabyrjunin er samt ekki það eina sem hefur breyst því að ég er enn og aftur orðin ein í kotinu. (Til að koma í veg fyrir misskilning skal það takast fram að Myrra er auðvitað enn hér með mér.) Það hefur auðvitað sína ljósu punkta eins og allt annað en í augnablikinu er pínu erfitt að sjá þá. Ég get allavega keypt mér fullt af nýju dóti því að nú er slatti af tómum skúffum og skápum, sko fann einn af þessum ljósu.
Þar sem að mig vantar nauðsynlega afsakanir til að vera ekki að læra eru því allir (sem ég þekki allavega) meira en velkomnir í heimsókn. Í boði verður kaffi, te, G-mjólk og sódavatn og hugsanlega hrökkbrauð ef þið eruð heppin.
Sjáumst :)
<< Heim