29 ágúst 2007

Tími breytinga

Skólinn er byrjaður og ég er hætt að vinna. Það fer ekki á milli mála. Próf í þar-þar-næstu viku. Það virðist við fyrstu sýn ekki svo slæmt. En það er í raun og veru alveg hræðilega skelfilegt. Hvernig fólk ákveður eiginlega svona lagað? Ég hef þjáðst af vaxandi prófleiða síðan í byrjun ágúst. Sniðugt svona loksins þegar ég fer ekki í sumarpróf. Það verður þó allavega gott að ljúka þessu af og fá loksins að fara inn á deildir, þó að ég kvíði nú örlítið fyrir grillinu sem á eftir að fara fram þar.

Skólabyrjunin er samt ekki það eina sem hefur breyst því að ég er enn og aftur orðin ein í kotinu. (Til að koma í veg fyrir misskilning skal það takast fram að Myrra er auðvitað enn hér með mér.) Það hefur auðvitað sína ljósu punkta eins og allt annað en í augnablikinu er pínu erfitt að sjá þá. Ég get allavega keypt mér fullt af nýju dóti því að nú er slatti af tómum skúffum og skápum, sko fann einn af þessum ljósu.

Þar sem að mig vantar nauðsynlega afsakanir til að vera ekki að læra eru því allir (sem ég þekki allavega) meira en velkomnir í heimsókn. Í boði verður kaffi, te, G-mjólk og sódavatn og hugsanlega hrökkbrauð ef þið eruð heppin.

Sjáumst :)

10 ágúst 2007

Hver ber ábyrgðina...

...á öllum þeim sokkum sem hverfa? Þeir virðast gufa upp einhvertíman eftir að þeir eru teknir af skítugum bífum og áður en hægt er að para þá aftur og koma fyrir í skáp eða skúffu.

Það sem mig langar samt mest að fá skýringu á er: Af hverju týnist alltaf bara annar sokkurinn úr parinu? Hinn liggur stakur eftir og bíður eftir að hans eini, sanni félagi birtist aftur.

Málið er semsagt að þessi einhleypu sokkagrey fara alveg óheyrilega mikið í taugarnar á mér. Ég vil ekki henda þeim ef ske kynni að mótaðilinn birtist skyndilega (því einhverstaðar hlýtur hann að vera) þannig að þeir safnast upp. Hrúgan bara stækkar og stækkar.

Er ég eina manneskjan sem á við þetta vandamál að stríða?

09 ágúst 2007

Þóra frænka

Löngunin til að blogg hellist afskaplega sjaldan yfir mig þessa dagana eins og augljóst er á þessari síðu.

Kemur þetta til af ýmsu en sennilega er fyrst og fremst um svokallaðan heiladvala. Hann hefur valdið því að gerjunin sem yfirleitt á sér stað inni í höfuðkúpunni á mér hefur hætt (vonandi aðeins tímabundið) og því kemur ekki yfir mig þessi knýjandi þörf til að deila hugsunum mínum með öðrum íslenskumælandi jarðarbúum.

Fyrir rúmri viku gerðist reyndar hinn merkilegasti atburður sem ég er nú loksins að koma mér í að skrifa um. Að kvöldi 31. júli, svona um tíu-leytið, hringdi síminn minn þar sem ég var stödd í vinnunni. Þegar ég svaraði sagði lítil, afskaplega spennt rödd Báru frænku "Sigurbjörg, vatnið er farið. Sjúkrabíllinn er á leiðinni." Þarna var að sjálfsögðu um að ræða legvatn því að litila krílið hennar Hlífu systur minnar hafði ákveðið að koma út í stóra heiminn utan við bumbuna. Þar sem að ég átti að fá að vera viðstödd þá athöfn dreif ég mig upp á spítala og tók með mér ýmislegt til að stytta mér stundir við biðina og ullarsokka til að mér yrði ekki kalt á tánum. Krílið var reyndar að flýta sér afskaplega og kl. 02:26 fæddist lítil stúlkukind sem hlaut nafnið Þóra. Það varð því ekki mikil þörf á dægrastyttingu en móðirin gat nýtt ullarsokkana góðu. Hún Þóra var 50,5 cm og 3895 g og því nokkuð ljóst að hún fékk alla þá næringu sem hún þurfti á þessu upphafsstigi lífs síns. Þóra er að sjálfsögðu svo fögur að erfitt er að horfa á hana sökum ofbirtu sem kemur þá í augun, enda er hefur hún að einhverjum hluta sömu gen og ég.

Þess ber að geta að móður, föður og börnum heilsast vel.

Hér á eftir fylgja nokkrar myndir af þessum nýjasta fjölskyldumeðlim.

Alveg glæný
Alveg glæný.
Hjá stoltum foreldrum
Hjá stoltum foreldrum.
Ánægð stóra systir
Ánægð stóra systir
Frænkurnar á fæðingarstofunni
Frænkurnar á fæðingarstofunni.

Það þarf líka að æfa svipbrigðin til þess að einhver hlusti á mann.

Reið
Vera reið...
Brosa
...og svo brosa.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS