30 júní 2007

Svindl-"dagur"

Það er svindl-dagur hjá mér núna. Sit í rólegheitum og naga bingó-kúlur. Samkvæmt matarprógramminu sem ég fylgi að nokkru leyti má maður nefnilega að leyfa sér einn svindldag á viku. Klárlega það besta við prógrammið. Nýti þetta út í ystu æsar. Búin að borða humar með rjómasósu og eplaköku með ís í kvöld (eða í gærkvöld kannski frekar). Ég er reyndar ekki alveg viss um að meiningin með því að leyfa svindldag hafi verið sú að borða eins mikla óhollustu og hægt er.

Ég hef ennþá smá áhyggjur af því að ég láti lífið á einni æfingunni en þær fara minnkandi. Ég er búin að vera á næturvöktum í þessari viku og er einmitt á einni slíkri núna. Ég ætti að mæta á æfingu kl. 9-11 í fyrramálið en treysti mér varla þar sem að þá verð ég búin að vaka í tæpan sólahring. Er ég algjör auli?

Annars er eitthvað mjög lítið í fréttum. Þessa dagana mæti ég í vinnuna og sef þess á milli. Ég þoli næturvaktir greinilega mjög illa. Sef miklu meira en venjulega en er miklu þreyttari. Ömurlegt. Ég dáist að fólki sem getur unnið á nóttunni meira og minna árum saman.

Þegar ég kem heim núna á eftir verður Flugmaðurinn lagður af stað í 2. vikna vinnuferð til Afríku. Heimsóknir eru því sérstaklega vel þegnar á næstunni

P.s. Ásláttar og stafsetningarvillur eru afsakaðar með óráði sökum þreytu.

19 júní 2007

Ég og Boot Camp

Byrjaði á Boot Camp námskeiði í dag. Það varð til þess að:

    Ég áttaði mig á því að ég er í skelfilega lélegu formi sem kemur fram í mæði, ógleði og blóðbragði.
    Ég hef verið alveg ótrúlega þæg í mataræðinu í dag til að reyna að fækka þeim æfingum sem lýsa má með ógleði og blóðbragði.
    Nú er ég komin með strengi í hina ýmsu vöðva og göngulagið verður sennilega eitthvað skrýtið á morgun.
Æfingin var mjög skemmtileg þrátt fyrir að ég héldi að lífi mínu væri að ljúka um kl. 07:15 í morgun (þegar ég var búin að vera á æfingu í 45 helvítis-mínútur).

Ef árangurinn verður í réttu hlutfalli við erfiðið er þetta samt vel þess virði :)

11 júní 2007

Nokkrir punktar

Ég er auðvitað löngu komin til landsins eins og flestir hafa sennilega giskað á. Ég er hins vegar ekki búin að koma neinu lagi á myndasafnið mikla frá því í ferðinni þannig að þær verða ekki til sýnis alveg strax (þetta gerir letin sko við mann).

Ég er að vinna flesta daga núna. Á samt stundum frí og panta sól alla þá daga. Já, takk! Verð að ná mér í meiri brúnku þar sem að allir spurðu hvernig ég hefði farið að því að halda mér svona hvítri í Thailandi (sem er auðvitað bara dónaleg spurning gott fólk).

Hann Ísak litli bróðir minn er að fara að útskrifast úr HÍ. Hvað skal gefa ungum, einhleypum karlmanni í útskriftargjöf?

Nú er uppþvottavél í íbúðinni minni. Hún er uppáhalds tækið mitt. Núna er mér alveg sama þó að allir sem fá sér bjór heima hjá mér vilji drekka hann úr glösum. Hugtakið "að spara uppvaskið" heyrist ekki lengur á þessu heimili.

Þar sem að ég hef ekki bloggað í tæpan mánuð er sennilega enginn að lesa þetta!

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS