26 mars 2007

Kynlíf mínus forleikur?

Er kynlíf með ZERO forleik endilega betra en það sem er með forleik?

Helgin í stuttu máli

Um helgina hitti ég frændsystkini mín í Hveragerði. Þar var haldin hin besta skemmtun þar sem tekist var á í SingStar af miklu kappi. Ég get því miður ekki haldið því fram að ég hafi farið með sigur af hólmi en ég reyndi mitt besta, annað verður ekki sagt. Þetta var alveg stórskemmtileg samkunda og vonandi endurtökum við þetta aftur áður en of langt um líður.

15 mars 2007

Hið ljúfa líf

Jæja þá er hin gerðin af daglega lífinu tekin við í bili, þ.e. vinnulífið. Byrjaði að vinna í dag eftir rúma mánaðarhvíld. Sem betur fer hefur lítið breyst þar og flestir samir við sig. Ekkert gaman að þurfa að læra allt upp á nýtt þegar maður kemur aftur.

Í dag hélt ég líka í fyrsta skipti í langan tíma kynfræðslu-fyrirlestur. Það var alveg ótrúlega gaman. Ég kannski svolítið ryðguð en krakkarnir hressir og skemmtilegir. Var búin að gleyma hvað það gefur manni mikið að gera þetta.

Í augnablikinu sit ég hins vegar hér heima í rólegheitunum ásam honum Friðrik. Komin í kósý-fötin, með rauðvínsglas í annarri hönd og kúbönska gleðitónlist í eyrunum.

Góður dagur, það er óhætt að segja það.

Blogg Guðbjargar Hildar

Þar sem að Guðbjörg Hildur tók pistilinn sinn út af síðunni set ég hann hér inn:

    Auglýsingabæklingur frá Smáralind var borinn í hús í dag. Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig.

    Forsíðumyndin blandar saman sakleysi barnæskunnar (stúlkan er umkringd böngsum og loðdýrum) við tákn úr klámi (líkamsstellingin, opni munnurinn og háu hælarnir). Útkoman verður hin saklausa hóra, hin hreina mey sem í einni svipan verður klámmyndadrottning. Er slík notkun á táknum, sem eru flestum fullorðnum vel kunnug, viðeigandi á bækling sem er ætlaður fermingarbörnum?

    Á öðrum stað í auglýsingablaðinu eru myndir af þekktri söngkonu sem máluð er eins og Barbie-dúkka. Í texta segir: „Barbie loves MAC er ný litalína sem kemur aðeins í takmarkaðan tíma sérstaklega hönnuð fyrir allar lifandi dúkkur.“ Eru stúlkurnar, sem eru um það bil að fara að fermast, aðeins lifandi dúkkur?

    Skilaboðin sem auglýsingablað Smáralindar sendir ungum stúlkum eru þessi: Verið undirgefnar kynlífsdúkkur.

Já gott fólk, þar hafið þið það.

08 mars 2007

Klám?

Í Fréttablaðinu í dag er talað við Guðbjörgu Hildi Kolbeins sem sakar forsvarsmenn Smáralindar um að blanda saman sakleysi æskunnar og klámi í nýjum fermingarbæklingi. Kona þessi er doktor í fjölmiðlafræði og skrifar um þetta pistil á bloggsíðu sinni.

Í gær þegar téður bæklingur kom inn á heimili mitt leit ég yfir hann og sá ekkert athugavert við myndirnar í honum. Hvorki forsíðumyndina eða einhverja aðra. Að vísu er stellingin á forsíðumyndinni vissulega nokkuð sérstök en ég tengi hana meira við að stúlkan á myndinni hefði átt að láta eins og dúkka eða tuskudýr og hefði þess vegna ekki yfir öllum þeim liðamótum að ráða sem við höfum flest. Á myndinni er hún enda umkringd böngsum og öðrum tuskudýrum.

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, sem ber víst ábyrgð á þessum ósköpum, segir í Fréttablaðinu: "Þetta er fermingarbarn og hún sér bara einhvern sora út úr þessu. Það hlýtur að vera á hennar ábyrgð." Ég er eiginlega alveg sammála.

Það má sjálfsagt finna eitthvað klámfengið í flestu ef bara er leitað nægilega vel. Myndir af börnum í sundfötum að leika sér á strönd, eða jafnvel allsnöktum í baði, eru bara það fyrir mér: Myndir af börnum. Þeir sem eru að leita að einhverju ósiðlegu sem og þeir sem að hafa kynferðislegan áhgua á börnum geta sjálfsagt séð eitthvað annað út úr þeim. Sennilega þyrfti því að rannsaka þann stóra hóp fólks sem hefur sett myndir af lítið, eða jafnvel ekkert, klæddum börnum sínum á netið. Kannski má meira að segja finna þar inn á milli myndir þar sem að börnin eru í annarlegum stellingum. Ja sussubía...meira dónafólkið!

05 mars 2007

Próftíð búin og týnd kisa

Úff... mér finnst eins og þessi próftörn hafi varað í heilt ár. Ég er gjörsamlega, algjörlega búin. En nú eru prófin búin líka og það er nú gott.

Ætli næstu dagar fari ekki í að reyna að skafa prófmyglunna af mér og koma með einhverjum ráðum lit á húðina á mér. Svona til þess að ég sjáist á árshátíðinni.

Það er nú annað mál en voða sæt kisa villtist inn til hans Ísaks bróður míns í gærkvöldi eða í morgun. Það er mynd af Snúllu, eins og kisan hefur verið nefnd, á blogginu hans. Ef einhver veit hver á þessa kisu má sá hinn sami gjarnan láta mig, nú eða Ísak, vita.

02 mars 2007

Mest...

...af hárinu er farið. Miklu betra svona

Reyndar eru bæði ég og hárið frekar sjúskuð á þessari mynd enda er hún tekin nálægt miðnætti.

Endilega látið heyra hvað ykkur finnst um breytinguna.

01 mars 2007

Karlmenn og hár

Undanfarna daga hef ég tekið eftir því að karlmenn vilja upp til hópa endilega hafa okkur konurnar (allavega þessar ungu) með sítt og mikið hár. Frá því að ég ákvað að klippa mig hef ég fengið óskir um að hætt við það eða allavega bíða frá ýmsum aðilum. Aldursbilið er breytt og spannar a.m.k. 22 ára til 88 ára. Bæði hann afi minn og Friðrik hafa bent mér á, eftir kvartanir mínar um hversu mikið verk sé að hafa þetta mikla hár, að það sé hlutverk konunar að hafa sítt hár hvort sem það sé nú þægilegt eða ekki. Afi tók skýrt fram að hann yrði skotinn í stelpum í sjónvarpinu af því einu saman að sjá sítt hár.

Reyndar eru það ekki bara karlmenn sem hafa sett út á þessar áætlanir mínar. Sjö ára frænka mín sagði þegar ég tjáði henni að hárið fengi að fjúka: Nei, þá verðurðu ekkert flott lengur! Meira að segja klippikonan mín jesúsaði sig víst í dag þegar hún frétti hvað hún á að framkvæma.

Ótrúlegt, alveg hreint ótrúlegt, hvað öðrum virðist þykja vænt um hárið sem er á hausnum á mér.

P.s. Ég vona að ég hafi ekki valdið neinum vonbrigðum með því að fjalla um mitt eigið hár í þessum pistli en ekki líkamshár karlmanna. Reyndar hef ég mikinn áhuga á hárvexti karlmanna og ekki er ólíklegt að hér birtist pistill um hann í fyllingu tímans.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS