24 maí 2006

Mjög sjálfhverft blogg

Þegar ég horfi út um gluggan minn virðist vera komið sumar. Það er bara plat. Úti er ískalt. Fæ gæsahúð og stinnar geirur bara af því að kíkja út í dyr. Þetta er samt skárra en norðan-snjóbylurinn sem er á Norðurlandi.

Mig langar að vera komin í sumarfrí. Finnst að allir í heiminum séu búnir í skólanum nema við litlu greyin sem erum í rannsóknarverkefnum.

Ég er nr. 29 í valröð fyrir medicine og kirugiu. Doltið aftarlega en það skiptir ekki öllu. Veit hvort sem er ekki almennilega hvar ég vil byrja. Kemur allt saman í ljós. Allavega engin valkvíði hjá mér. Kasta bara upp krónu ef það verður eitthvert val.

Góðar fréttir: Ég er að fara að jubilera 15.-16. júní. Fæ fiðring í magann af því að hugsa um það. Það verður skemmtilegt og skrýtið að hitta alla MA-félagana aftur. Suma hef ég ekki hitt í 5 ár. Svo kemst ég líka sennilega til Krítar í lok júní. Enn meiri fiðringur í magann!

Slæmar fréttir: Hausinn á mér er fullur af sumri, jubileringu og draumi um utanlandsferð þegar hann á að vera stútfullur af fyrirlestri og ritgerð. Verð að reyna að breyta þessu. Ekki seinna vænna.

22 maí 2006

Draumur....

Í hverfinu mínu er sjoppa. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Þessi umrædda sjoppa er ekki einu sinni sú eina í hverfinu.

Þessi sjoppa er hins vegar nokkuð sérstök. Stór hluti þeirrar matvöru sem þar er seldur er kominn vel yfir síðasta söludag. Maðurinn sem rekur hana og afgreiðir geymir víst bæði byssu og bjór undir búðarborðinu. Er það mál manna að byssuna noti hann á óprúttna eða skulduga viðskiptavini en selji bjórinn. Aldrei hef ég þó heyrt um að hann hafi gengið svo langt að hleypa af byssunni á skuldaselina. Af þessu má glögglega ráða að betra er að fara eitthvað annað ef það er í boði.

Nú vill það þannig til að það er strætóskýli beint á móti þessari tilteknu sjoppu. Í því sit ég stundum góða stund og bíð eftir hinum stundvísu íslensku strætóum. Það bregst varla að meðan ég bíð sé ég unga drengi labba frá Hlemmi og inn í sjoppuskömmina. Þar eru þeir augnablik og koma svo út aftur með, já takið nú eftir, nákvæmlega ekki neitt eftir því sem best verður séð. Stundum sjást einnig ungir menn mæta á svæðið í bíl og gera nákævmlega það sama.

Síðast þegar gerð var svokölluð "rassía" í þessari verslun var hreinsað út óhugnalega mikið af útrunni matvöru ásamt því sem áfengi, fíkniefni og byssur voru gerð upptæk. Þegar ég tek mið af þessu öllu saman get ég ekki ímyndað mér að þessir strákar sem gera sér ferð í þessa sjoppu séu þar nema í einum tilgangi. Ekki eru þeir að kaupa áfengi því þeir virðast koma út tómhentir. Þá er aðeins eftir eitt sem talað er um að sé í boði þarna en ekki í öðrum söluturunum bæjarins.

Það kaldhæðnislegasta við þetta allt saman er að lögreglustöðin er ekki nema 500 metra í burtu og í sjónlínu frá sjoppunni!

Ísland án eiturlyfja 2000

05 maí 2006

Jahá!

Ég hef alltaf sagt að kelerí sé af hinu góða. Sjáiði bara þetta.

Niðurstaða vikunnar

    Tölfræðikunnátta - engin

    Rugl og aulaskapur - í hámarki

    Leti og ómennska - við hættumörk

    Hæfileikar til að skrifa rannsóknarritgerð - mjög takmarkaðir

Ritgerðin gengur semsagt ekkert rosalega vel. Stressið er að byrja að læðast upp að mér. Það er ekki gott, stress lamar mig nenfnilega. Þegar ég er stressuð sit ég bara og stari á það sem ég ætti að vera að lesa. Í þessu tilfelli á ég því sennilega eftir að stara á autt "blað" á tölvuskjánum. En aftur í bévítans tölfræðina. Krosstöflur og T-próf - þetta er hebreska fyrir mér.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS