Í Fréttablaðinu í dag er talað við Guðbjörgu Hildi Kolbeins sem sakar forsvarsmenn Smáralindar um að blanda saman sakleysi æskunnar og klámi í nýjum fermingarbæklingi. Kona þessi er doktor í fjölmiðlafræði og skrifar um þetta pistil á bloggsíðu sinni.
Í gær þegar téður bæklingur kom inn á heimili mitt leit ég yfir hann og sá ekkert athugavert við myndirnar í honum. Hvorki forsíðumyndina eða einhverja aðra. Að vísu er stellingin á forsíðumyndinni vissulega nokkuð sérstök en ég tengi hana meira við að stúlkan á myndinni hefði átt að láta eins og dúkka eða tuskudýr og hefði þess vegna ekki yfir öllum þeim liðamótum að ráða sem við höfum flest. Á myndinni er hún enda umkringd böngsum og öðrum tuskudýrum.
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, sem ber víst ábyrgð á þessum ósköpum, segir í Fréttablaðinu: "Þetta er fermingarbarn og hún sér bara einhvern sora út úr þessu. Það hlýtur að vera á hennar ábyrgð." Ég er eiginlega alveg sammála.
Það má sjálfsagt finna eitthvað klámfengið í flestu ef bara er leitað nægilega vel. Myndir af börnum í sundfötum að leika sér á strönd, eða jafnvel allsnöktum í baði, eru bara það fyrir mér: Myndir af börnum. Þeir sem eru að leita að einhverju ósiðlegu sem og þeir sem að hafa kynferðislegan áhgua á börnum geta sjálfsagt séð eitthvað annað út úr þeim. Sennilega þyrfti því að rannsaka þann stóra hóp fólks sem hefur sett myndir af lítið, eða jafnvel ekkert, klæddum börnum sínum á netið. Kannski má meira að segja finna þar inn á milli myndir þar sem að börnin eru í annarlegum stellingum. Ja sussubía...meira dónafólkið!