31 janúar 2007

My man!

Fyrir þau sem hafa ekki enn séð hann Friðrik skelli ég hér inn mynd af honum.

Maðurinn er hamingjusamari en orð fá lýst enda eyðir hann flestum stundum dagsins með mér

30 janúar 2007

Klár gutti

Þessi litli er svo flinkur að maður gæti bara haldið að hann væri skyldur mér.

27 janúar 2007

Hjúkket!!!

Þetta rétt slapp í dag. Fann magasárið vera að myndast á síðustu mínútum leiksins. Nú verðum við bara að ná 7. sæti eða ofar. Koma svo strákar!

Já, og lögin í Júróvisjón í kvöld voru flest alveg hræðileg. Besta lagið situr eftir og þau sem komust áfram fóru á nöfnum flytjendanna. Rugl. Skandall. Fólk er fífl.

25 janúar 2007

Sorg í sálinni og tár á kinn...

...svekkjandi leikur, virkilega svekkjandi.

24 janúar 2007

Hommar, býflugur og hákarlar

Pirringur dagsins: Alþjóðlegar reglur um að karlmenn sem hafa haft samræði við annan karlmann megi ekki gefa blóð. Já, og heldur ekki konur sem hafa haft sofið hjá karlmanni sem hefur haft samræði við annan karlmann. Finnst þetta alveg út í hött.

Í morgun kom auglýsingabæklingur inn um lúguna. Hann var fullur af myndum af öskudagsbúningum. Það fóru að rifjast upp fyrir mér búningar sem ég átti þegar ég var lítil. Einu sinni var ég býfluga. Búningurinn var svakalega flottur og fyrirferðamikill. Niður úr honum stóðu örmjóar spírur sem voru víst fæturnir á mér. Minnir óþægilega mikið á sjálfa mig nokkrum árum seinna - á fermingardaginn.

Hákarlar eru ekkert vondir. Þeir ruglast bara stundum á okkur og einhverjum öðrum dýrum. Sjáið bara hér. Enda eigum við auðvitað ekkert (frá náttúrunnar hendi) að vera að svamla á margra metra dýpi lengst úti í sjó.

23 janúar 2007

Með sólskin í sálinni

Leikurinn í gær var æðislegur, frábær og yndislegur. Hann setti stórt bros í hjartað mitt.

Svona geta litlir hlutir glatt mann mikið. Eins og það skipti einhverju raunverulegu máli hvernig íslenska landsliðinu gengur á HM.

Þó að það breyti engu um gang heimsins skiptir það bara samt máli fyrir þjóðarsálina á þessu litla landi. Við erum jú best og fallegust! Sigurinn á Frökkum sannar það bara. Er það ekki?

15 janúar 2007

Varúð eplaskeri!

Held að ég hljóti að geta fengið einhvern titil fyrir það hvernig mér tekst alltaf að meiða mig.

Skýring: Í gær fór ég í IKEA og keypti mér eplaskera. Þegar ég kom heim flýtti ég mér að taka utan af skeranum og við það þrýsti ég einum fingrinum mjög fast á hnífinn. Þannig komst ég að því að blaðið á svona skera er mjög beitt. Með samhentu átaki tókst okkur Ísaki samt að stöðva ógurlegt blóðflæðið og svo var farið í apótek til að geta sett einhverjar umbúðir á putta-greyið. Þetta hefur í för með sér sársauka við skrif á tölvu. Bölvað vesen.

Ég er auli!

Ekki var nú samt allt slæmt um helgina. Ég keypti mér tvö pör af skóm. Bæði voru þau með háum hælum. Þetta er einstakt og eftirtektarvert dæmi. Reyndar keypti ég þá ekki beint...ég valdi og mamma heimtaði að borga. En það var líka fínt. Takk mamma.

Þetta var semsagt góð helgi með sársaukafullum endi.

10 janúar 2007

Jól, áramót og afmæli x2

Jæja, gleðileg jól börnin mín. Nei, bíddu aðeins við. Gleymdi að blogga öll jólin. Ég get samt allavega sagt gleðilegt ár þó svo að það sé ekki alveg glænýtt lengur.

Margt og mikið hefur auðvitað gerst síðan ég bloggaði síðast. Merkilegast er sennilega að ég fór í fyrsta skipti ekki norður um jólin. Lá bara í leti í Skeggjagötunni í marga, marga daga. Var meira að segja í fríi í vinnunni líka þannig að þetta var nú meira sukkið. Enda sést það alveg á manni, rúmmálið er orðið heldur meira en fyrir þessa miklu áthátíð. Þá er víst bara að reyna að minnka það aftur fyrir árshátíð.

Mér tókst líka að verða 25 ára. það var í fyrsta skipti sem ég upplifði afmælið sem ekki svo gleðilegan atburð. Fannst ég allt í einu bara orðin rosa gömul. Hálfþrítug! Óhugnarleg staðreynd. Dagurinn var samt skemmtilegur og góður. Fékk fjölskylduna í kaffi sem ég þurfti nánst ekkert að hafa fyrir því Hlífa mætti bara með allt dótið til mín. Gerist ekki mikið betra en það.

Í gær fór ég með ömmu gömlu til augnlæknis. Var gífurlega fúl þegar ég komst að því að læknirinn var ekki mættur þegar við komum kl. 8:30. Fyrstu tímar eru bókaðir kl. 8. Alveg hreint óþolandi helvíti. Biðin varð því rúmlega klukkutími. Aaaaarrrrg pirr! Loksins fékk samt sú gamla resept fyrir gleraugum og við Sjonni drifum okkur með gömlu hjónin í Gleraugnasöluna (sem er alveg örugglega besta gleraugnaverslun landsins) til að fá nú loksins ný gleraugu fyrir þau. Þeirri gömlu var strax færður stóll og þar sat hún eins og drottning og stjanað var við hana á alla kanta. Kristmundur sagði fyrirfram að ég ætti öllu að ráða því honum væri sama svo lengi sem þetta væri nothæft. Annað kom nú á daginn því að hann hafði sterkar skoðanir á lit, efni og stærð. Allt gekk þetta samt hratt og vel og allir fóru ánægðir út.

Í gær kom að því að ég ákvað að ég hefði ekki tíma til að gera allt. Ég dró mig því út úr Lýðheilsufélagi læknanema. Það var alveg hundfúlt en það er sennilega betra að vera með færri hluti á sinni könnu og geta þá gert þá almennilega.

Í lokin vil ég óska honum Afa mínum Kibba til hamingju með 88 ára afmælið í dag. Ótrúlegt hvað karlinn er gamall.

Afi í sínu rétta umhverfi.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS