30 mars 2006

Hann Ísak bróðir minn á afmæli í dag!

Til hamingju með það kallinn minn.

26 mars 2006

Góð helgi

Fór á tónleika í Háskólabíói á föstudaginn. Hlífa og Maggi gáfu mér miða. Ellen og KK hituðu upp og spiluðu eitt uppáhaldslagið mitt í öllum heiminum: When I think of angels. Tónleikarnir sjálfir voru nú samt með henni Lisu Ekdahl. Hún er sænsk. Hún er skrýtin, reyndar alveg stórfurðuleg. En skemmtilegur tónlistarmaður. Fékk mig til að brosa næstum alla tónleikana. Takk fyrir miðana gömlu mín.

Vaknaði svo eldsnemma á laugardagsmorguninn. Virðist vera að verða morgunhani aftur eins og þegar ég var krakki. Get ekki sagt að mér finnist það leiðinlegt. Dagarnir nýtast svo miklu betur þegar þeir byrja milli átta og níu á morgnanna. Líka algjör synd að láta svona gott veður eins og á laugardaginn fara til spillis.

Í morgun átti ég að fara að vinna kl. 8 en gleymdi að stilla klukkuna mína. Algjör auli. Það kom þó ekki að sök þar sem ég var vakin rétt fyrir átta - fékk morgunkaffi í rúmið. Lúxus!

En nú er það bölvuð skattskýrslan...

15 mars 2006

Nammi...

...namm. Stelpur skoðið þetta :)

13 mars 2006

Hitt og þetta

Alveg er merkilegt hvernig tími sem á að fara í að gera ekki neitt fyllist alltaf af verkefnum. Ekki að það sé endilega slæmt. Er hvort sem er eitthvað gaman að liggja bara í leti?

Það er semsagt nóg að gera hjá mér. Rannsóknarverkefnið komið á fullt og ekki veitir af að taka Ástráðs-fjármál í gegn eftir slugsið í þeim málum í próftíðinni, já og reyndar mín eigin fjármál líka. Vinnan tekur líka tíma þó að hún sé ekki mikil.

Það er samt svo gott fyrir sálina að mæta í vinnuna mína og fá hrós eins og "þú hlýtur bara að vera engill" og "mikið ertu með fallegar tennur". Ekki á hverjum degi sem ég fæ að heyra þessi orð.

Fór á Læknaleika á föstudaginn. Mæting 3. ársins var hreint og beint skammarleg. Svo slæm var hún að ég endaði kvöldið á því að fá mér að borða með tveimur ungum mönnum af 1. ári. Reyndar tengdust piltur af 3. ári og stúlka af 1. ári mun sterkari böndum heldur en að borða saman. Alltaf gaman að því...

...tókst mér að gera einhverja forvitna?

06 mars 2006

Loksins...

...eru prófin búin...allavega í bili...vonandi þangað til á næsta skólaári. :D

Það var önnur kona sem sat yfir okkur. Þ.e.a.s. ekki þessi sem er venjulega hjá okkurí prófunum. Pínu sorglegt fannst mér, að sjá hana var orðið hluti af prófupplifuninni. Þessi nýja boraði líka í nefið og var alltaf á svipinn eins og hún væri alveg að fara að gráta. Pirrandi.

Annars er ég að upplifa alveg nýja tilfinningu. Mig langar að skúra og skrúbba. Gefur kannski smá vísbendingu um hvernig ástandið er hér hjá mér.

En á dagkránni á næstunni er m.a.:

  • Að fara til Hollands.
  • Að liggja í leti.
  • Að fara út að skemmta mér.
  • Að skreppa í gamla góða Skagafjörðinn.
  • Að hitta fólk. Vá það verður gaman. Allir að koma í heimsókn eða bjóða mér til sín.
  • Eitthvert rannsóknarverkefni...veit nú ekki hvað ég nenni því mikið. Allt hitt hljómar svo miklu skemmtilegra.

En fyrst á dagskrá eru hrein rúmföt og uppvask. Svo að leggja mig, fara í sturtu og út að borða með mínum yndislegu bekkjarfélögum.

05 mars 2006

Oh Long John...

... Oh Long Johnson

Þetta vídjó er svo fyndið. Kötturinn sem kemur síðast er frábær. Algjört gull. Hefur skemmt mér ómælt á þessum síðustu og verstu.

MA sló MR út úr Gettu betur

Varð bara að koma þessu að ef einhverjir hefðu misst af þessum mjög svo skemmtilega viðburði.

MA hot hot hot... :)

04 mars 2006

Prófin alveg að verða búin

Ég er orðin leið á prófum, nenni ekki að læra meira. Ég er orðin leið á veseni með rannsóknarverkefnið, nenni heldur ekki meiru af því.

Síðasta prófið er samt ekki á morgun heldur hinn. Þá tekur rannsóknarverkefnið við. Það verður gott. Loksins tími til að sinna því almennilega. Vonandi verður þá ekkert meira vesen með það.

Áðan kom ég að ketti sem hafði verið keyrt á. Kattargreyið lá líflaust í götunni. Skil ekki af hverju fólk keyrir bara í burtu. Alveg lágmark að stoppa og taka kisugreyið upp úr götunni þannig að það verði ekki keyrt yfir það aftur. Mér fannst reyndar aðallega leiðinlegt að kötturinn var ekki merktur þannig að við gátum ekki látið eigendurna vita.

Fyrir þá sem hafa áhuga á uppvaskinu mínu er eldhúsið fullt af óhreinu leirtaui og ógeði. Býst við öðrum ógeðslegum rottudraumi á næstunni.

01 mars 2006

Rotta í eldhúsinu!

Ég bý ein. Yfirleitt finnst mér það mjög gott. Þegar ég er í prófum er það samt slæmt. Þá vantar einhvern annan til sjá um allt sem ég gef mér ekki tíma til að gera.

Matur er sem betur fer ekki stórt vandamál. Fer bara til stóru systur og borða þar eða litli bróðir kemur með mat til mín. Fjölskyldan mín er yndisleg.

Það versnar í því þegar kemur að þrifum.

Það er rykteppi á öllum láréttum yfirborðum nema gólfinu. Þar er rykið meira svona í hrúgum ásamt hárunum af Myrru. (Hún ákvað nefnilega að þetta væri frábær tími til að skipta úr þykkum vetrarfeldinum yfir í þunnhærðari sumarfeld.) Gólf sem líta út fyrir að hafa verið skúruð síðasta árið eru fjarlægur draumur. Til fjarlægra drauma teljast líka hreint klósett og tóm óhreinataus-karfa.

Í síðustu viku dreymdi mig rottu. Hún var búin að setjast að í eldhúsinu mínu innan um allt draslið. Hún var mjög ljót og þrjósk, neitaði að fara og neitaði að deyja. Þó að mér finnist rotturnar frá Keldum bara sætar þá ofbauð mér algjörlega við tilhugsuninni um holræsarottu í eldhússkápunum. Ég vaskaði upp.

Kveðja úr skít og stressi,

Sibba tibba táfýla.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS