27 október 2006

Rólegt föstudagskvöld

Held að ég hljóti að vera veik. Það er föstudagskvöld og ég er í alvörunni heima að læra. Var að hugsa um að kíkja á alla fullu læknanemana í bænum í kvöld en er orðin svo gömul að ég veit ekki hvort ég nenni því.

Best að vera bara heima og baka múffur til að fara með til Ómars á sunnudaginn - hann sagði nefnilega að ég ætti að koma með svoleiðis. Er farin að halda að hann tali við mig bara til að fá að borða. Kom fyrir algjöra tilviljun í heimsókn tvo daga í röð þegar ég átti lummur. (Já, ég gerði lummur!) Hmmm. Það þyrfti kannski aðeins að endurhugsa þessa vináttu. Ómar: Þú manst vonandi að ég á ennþá samninginn!

Annað mál er að mér finnst mjög frekar óhugnalegt að fólk sé handtekið fyrir að blogga um viðkvæm mál. Nei, nei ég er ekki að bulla þetta var í grein á mbl.is. Það er kannski best að lesa bloggið sitt yfir og taka vafasama hluti út, þ.e. framkvæma bloggskoðun.

Kveðja, gamla húsmóðirin.

26 október 2006

Hitt og þetta

Í gær héldum við upp á afmælið hans Hjartar. Allir þeir úr fjölskyldunni sem eru staðsettir hér í bænum komu og við áttum góða stund saman. Mikið rosalega er gott að hitta fjölskylduna sína.

Í dag og á morgun verða (vonandi) miklir lærdómsdagar. Á laugardaginn verð ég svo að vinna hópverkefni og á sunnudaginn er vinnudagur hjá mínum heittelskaða Ástráði! Það er því nóg að gera þessa dagana. Í hverri viku held ég að það verði minna um að vera í næstu viku en svo reynist aldrei vera.

Mikið ofsalega er ég hrædd og reið yfir þessum fréttum af nauðgunum síðustu vikurnar. Ekki séns ég þori fyrir mitt litla líf að labba ein heim úr bænum. Hvað fær einhver sem heldur konu meðan annar nauðgar henni eiginlega út úr því. Skil bara ekki svona ógeð. Reyndar er talað um að margir nauðgarar upplifi nauðgun sem ofbeldisverk en ekki kynferðislegan verknað í mörgum tilfellum. Ef þetta eru nú sömu mennirnir sem nauðguðu stelpunum við MR og Þjóðleikhúsið spyr maður sig hvort þeir skiptist á að nauðga eða hvort annar er bara aðstoðarmaður. Veit ekki hvort mér finnst sjúkara!

Ég var samt mjög ánægð þegar ég heyrði að báðar stelpurnar hafa kært nauðganirnar. Það er allt of algengt að nauðganir séu ekki kærðar. Það er samt sennilega af því að það er erfitt fyrir fórnarlambið að ganga í gegnum skýrslutökur og réttarhöld, fáir eru dæmdir og þeir sem eru dæmdir fá dóma sem hæfa því frekar að þeir hefðu brotist inn í sjoppu. Það má samt fagna því að það er verið að víkka út hugtakið nauðgun í lögunum, það verður semsagt ekki bara "typpi í píku" lengur. Ótrúlegt að hingað til hafi það ekki talist nauðgun þegar hnefa er troðið upp í leggöng gegn vilja konunnar!

Jæja best að snúa sér að námsefninu áður en blóðþrýstingurinn hækkar upp úr öllu valdi.

Þangað til næst...

25 október 2006

Afmæli!

Hann Hjörtur "bróðir" minn á afmæli í dag. Nú er hann orðinn jafn gamall og ég, alveg 24 ára.

Til hamingju með það Hjörtur minn!

Verð nú bara að setja hér inn í tilefni dagsins þessa æðislegu mynd. Ég veit að ég á eftir að fá miklar þakkir fyrir það :)

19 október 2006

Skemmtileg samsæriskenning

Vil benda fólki á að lesa Bakþanka í Fréttablaðinu í dag. Alveg hreint einstaklega skemmtileg samsæriskenning um hvers hagur það sé eiginlega að fita okkur. Honum Dr. Gunna er greinilega ekki alls varnað.

Úff!!!

Finnst þér að einhver sem þú þekkir syngi illa? Ef svo er skaltu hlusta á þennan ófögnuð hér. Eftir að hafa hlustað á þetta er ég tilbúin að hlusta á hvern sem er syngja hvað sem er. Þetta verður örugglega bráðum tekið út af netinu því þetta hlýtur að skemma heyrn þess sem á hlýðir.

Hér kemur líka skelfileg játning. Þegar ég var 13 átti ég disk með Peter Andre og fannst hann æði og alveg svakalega sexy. Mikið er gott að maður skuli þroskast!

14 október 2006

Í sveitinni

Hef eiginlega ekki sest niður, nema rétt til að borða, síðan ég kom. Ég og gamla settið vorum í allan gærdag og dag að skera kjöt, hakka kjöt og pakka kjöti. En nú er þetta búið. Hálft naut komið í frystinn í notendavænum umbúðum.

Við erum öll afskalega þreytt en glöð og sæl með þetta afrek okkar. Nú tekur bara við leti og ísát þannig að við missum örugglega enginn kíló í hamaganginum.

Annað í fréttum er að Hlífa mín átti afmæli í gær. Varð víst alveg 32 ára. Til hamingju með það, gamla mín. Maggi varð svo 31 þann 5. og óska ég honum líka til hamingju með það. SMS-ið sem ég sendi honum komst víst ekki til skila (eða réttara sagt sendi ég það óvart til allt annarrar manneskju). Finnst nú frekar súrt að missa af afmælisveislunum en það verður að hafa það í þetta skiptið.

12 október 2006

Mér finnst þetta...

Aftur í skólann

Jæja þá er skólinn byrjaður hjá mér aftur. Fannst svo rosalega gaman í fyrr að læra lyfja- og meinafræði að ég ætla að gera það aftur. Fór líka á námstækninámskeið og nú þarf ég að fara að prófa skimnu, hugkortagerð, Cornell-glósuaðferð, tímaáætlanagerð og fleira og fleira. Held að það verði full vinna bara að prófa þetta allt. Vonandi virkar bara eitthvað af þessu dóti.

Núna sit ég í skólastofunni með nýjum bekk. Skrýtin tilfinning. Gömlu, góðu bekkjarfélagar: Ég sakna ykkar. Nýi bekkurinn er samt örugglega alveg fínn. Þetta er bara dálítið undarlegt.

Verð í sveitinni um helgina. Hef ekki farið svona oft norður síðan ég flutti suður held ég.

Alltaf gott að komast aðeins á Hótel mömmu - má bara ekki vera of lengi í einu.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS