28 febrúar 2007

Alein

Mikið er yndislegt að vera hér ein í heiminum og geta sungið hátt og falskt með hallærislegri tónlist án þess að fara í taugarnar á nokkrum, tja eða þurfa að skammast mín.

Eina verurnar sem gæti heyrt í mér eru hrafnarnir. Kannski halda þeir að hér inni sé dýr í dauðateygjunum og hugsa sér gott til glóðarinnar.

27 febrúar 2007

Lokaspretturinn

Jæja, þá er ég komin í sveitina. Dekur og mömmumatur framundan, ásamt einhverjum lærdómi víst. Hér norðan heiða ríkir Vetur konungur og það er voða huggulegt að sitja inni í hlýjunni og horfa á skafrenninginn fyrir utan gluggan. Fæ mér kannski bara kakó til að fullkomna upplifunina.

Gangi allt saman upp hjá mér tek ég próf á mánudag og fer svo í frí frá skóla þangað til næsta haust. Mér finnst gaman í skóla en það er líka gott að breyta til.

Í tilefni breytinga ætla ég líka að klippa hárið á mér stutt. Eða réttara sagt borga einhverjum öðrum fyrir að gera það. Friðrik vill að ég liti það líka dökkt. Aldrei að vita hvað manni dettur í hug.

Skál fyrir tilbreytingu.

23 febrúar 2007

Tuðblogg

ATH. Þetta blogg var skrifað í gær en þá vildi Blogger ekki leyfa mér að setja það á netið.

Áðan horfði ég á löggumann á mótórhjóli keyra beint yfir gatnamót, í veg fyrir mig sem var að fara að beygja, af akrein sem skýrt og greinilega er merkt sem beygjuakrein til hægri. Reyndar keyrir fólk meira og minna beint yfir af þessari akrein þannig að maður passar sig ná á þessu, en löggan, það finnst mér nú einum of.

Rétt áður þegar ég var að keyra yfir Hringbraut hina nýju, á grænu ljósi og af akrein sem til þess er gerð, ók einhver karl í veg fyrir mig. Ég lagðist að sjálfsögðu á flautuna, enda finnst mér alveg hreint óþolandi þegar fólk gerir þetta og ótrúlegt að ekki verði fleiri slys. Maðurinn horfði á mig eins og ég væri eitthvað skrýtin.

Þegar ég var svo að fara að beygja inn í mína ástkæru heimilisgötu, sem eins og allir vita er einstefnugata, mætti ég bíl þar á horninu og neyddist til að nema staðar til að klompa ekki bílinn "minn". Ég lagðist aftur á háværu Skoda-flatuna. Ungi maðurinn við stýrið varð reyndar frekar skömmustulegur og baðst afsökunar með miklu handapati og skemmtilegum svipbrigðum þannig að ég fyrirgaf honum eiginlega. Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sipti sem bíll keyrir þessa götu öfugt. Næstum á hverjum degi sé ég einhvern sem keyrir á móti einstefnunni. Í gær sá ég einn keyra hana öfugt, í fyrradag var næstum búið að keyra hana móður mína niður þar sem að hún gætti þess ekki að líta á móti einstefnunni áður en hún keyrði yfir götuna og á laugardaginn lenti ég í því að einhver strákskratti var næstum búinn að keyra á mig þegar hann beygði inn götuna á móti mér. Reyndar datt mér ekki í hug að víkja fyrir við komandi heldur bíbbaði og benti honum á "innakstur bannaður"-merkið. Hann brást reiður við og bíbbaði á móti. Hleypti mér þó framhjá en elti mig svo með flauti og látum.

Ég var að hugsa um að hringja í lögguna um daginn og biðja þá að fylgjast aðeins með því hvernig er ekið í þessari götu, bæði með tilliti til akstursstefnu og þess að það er 30 km hámarkshraði í hverfinu. Nú er ég hins vegar á báðum áttum fyrst að lögreglan fer ekki eftir umferðrarreglunum sjálf.

Kveðja, Gribban.

19 febrúar 2007

Próftíð

Jæja þá er fyrsta prófið. Held það hafi gengið í þetta skiptið ;) Loksins, loksins.

Nú tekur við meinafræðilestur í tvær vikur. Fyrri vikuna á ég eftir að horfa ofan í smásjá klukkustundum saman ásamt bókalestri og seinni vikuna verður nefið hreinlega grafið ofan í bók með óhugnarlegum lýsingum og jafnvel enn ljótari myndum. Ja, þetta er allavega planið.

Í kvöld er hins vegar bara slökun og rauðvín. Það veitir ekki af að safna smá orku fyrir næstu törn.

Alveg fullt af bloggefnum í hausnum á mér en þau verða að bíða betri tíma. Móðir mín lísti mér sem sprunginni blöðru áðan og þannig líður mér. Er algjörlega búin, en þetta er allavega góð þreyta :)

15 febrúar 2007

Háfaði

Þegar ég var lítil skildi ég ekki af hverju stafirnir f og v væru báðir til. Ég gat alveg ómögulega gert mér grein fyrir því hvor átti að vera hvar. Í gær komst ég að því að ég á ennþá við þetta vandamál að stríða. Ég gat alls ekki skrifað orðið "hávaði" því að ég vissi ekki hvor stafsskrattinn átti að vera í því.

Er þetta eðlilegt? Ég bara spyr.

14 febrúar 2007

Skilgreining á kaldhæðni?

Ég er með bólginn og auman vísifingur á hægri hendi. Það er af því að ég barði honum í vegg í gær...

...meðan ég var að dansa THE SAFETY DANCE!

Til nánari útskýringar held ég að það sé best að skella bara hér inn myndbandinu við lagið Safety dance með hljómsveitinni Men Without Hats.

13 febrúar 2007

Fleiri, stærri álver?

Er ekki komið nóg af álverum í bili? Hvernig væri að bíða aðeins og sjá hvað gerist ef við byggjum ekki ný álver og stækkum ekki þau sem fyrir eru í nokkur ár. Held að það væri ekkert hræðilegt.

Vilja Íslendingar virkilega að efnahagur lands og þjóðar sé á valdi erlendra stórfyrirtækja sem geta pakkað saman og farið þegar og ef þeim hentar.

Skýrasta dæmið um slíkt er hótun Alcan um að hætta bara með álverið í Straumsvík fái þeir ekki í gegn stækkun. Þetta sýnir að þeir ætla sér að snúa upp á hendurnar á íbúum Hafnarfjarðar. Reyndar græðir Hafnafjarðarbær ekki mikið á því að hafa álverið í túnfætinum, en það er kannski best að láta liggja á milli hluta þar sem að talsmenn Alcan vilja frekar ræða mögulega tekjuaukningu bæjarins ef af stækkun og breytingum á sköttum og gjöldum álversins verður heldur en reikna með sama fyrirkomulagi áfram. Það er hins vegar ekkert sem tryggir íbúum bæjarins að breytingar verði gerðar ef álverið verður stækkað. Með því að tala um greiðslur til Hafnarfjarðar ef hitt og ef þetta eru talsmenn álversins að ljúga að þjóðinni. Alcan reyndi reyndar líka að ávinna sér hilli hins almenna borgara með mútum um jólin eins og frægt er orðið. Þótti mér þar heldur ómaklega vegið að heiðri Hafnfirðinga. Það verður að reikna með því að fólk láti ekki stórt mál eins og stækkun álvers ráðast af því að það fékk disk með Bó í jólagjöf.

Það er þó ekki framkoma Alcan sem fékk mig til að hripa þetta niður heldur að Geir H. Haarde sagði víst í Silfri Egils að hann gæti hugsað sér að sjá þrjú álver rísa hér á landi fljótlega. Talaði um á árunum 2015-2020. Þetta þykir mér ansi gróft.

Hvað gerist ef hann fær sitt fram? Hvað gerist ef öll álfyrirtækin fara að nota sömu aðferðir og Alcan; hótanir og mútur? Hvað gerist ef áliðnaðurinn dregst saman? Hvað með útblásturinn frá þessum álverum? Hvar á að fá raforkuna fyrir þau öll? Hvað með þensluna sem er víst á hinu litla Íslandi?

Á kannski að virkja bara út um allt? Hvað með komandi kynslóðir? Er virklega rétt að virkja ár sem nú þegar eru stór segull fyrir ferðamenn og skapa atvinnu án þess að þeim sé breytt á nokkurn hátt bara til að geta fengið eitt enn álverið?

Hvar á að draga línuna?

11 febrúar 2007

(Upp)Deit-helgin mikla

Jæja. Helgin sem átti að fara í að læra frá upphafi til enda fór að stórum hluta í björgunaraðgerðir á tölvunni minni. Nú er búið að setja allt upp á henni aftur og "uppdeita" hið yndislega Windows XP stýrikerfi óslitið í hálfan sólahring til að það sé nú í lagi. Eins og gefur að skilja tók þetta talsverðan tíma frá náminu og olli einnig þónokkrum pirringi sem tók enn meiri tíma frá náminu.

Nú verð ég bara að trúa því að hún eigi ekki eftir að hiksta það sem eftir ef af próftíðinni og styðja mig með ráðum og dáð. Til að auka líkur á því breytti ég nafninu á henni úr "Ikke bruglige maskine" í "Lærufélaginn". Kannski líkar henni það betur.

Góðu fréttirnar eru samt þær að nú er ég að gera hluti sem ég var í örvæntingu að reyna að gera á milli grát- og hræðslukasta daginn fyrir lyfjafræðipróf í fyrra. Það er umtalsverð framför þar sem að nú er vika í prófið.

Síðasti kennsludagur fyrir próf er á morgun og það er ekki laust við að stressið sé að byrja að læsa sér í kroppinn. Það veldur því að ég er afskaplega meir og háð öðrum. Þetta veldur svo miklu álagi á sambýling minn að mamma hefur ákveðið að koma suður til að sjá mér fyrir fæði og fötum. Ja, ekki er öll vitleysan eins.

Allt virðist líka ætla að ganga upp með vinnu og ferðalög frá því eftir próf þar til næsta haust. Stefnan hefur nú verið sett á SA-Asíu upp úr miðjum apríl. Þar sem að við skötuhjú erum búin að skipta ansi oft um skoðun skal þó taka þessari ákvörðun með fyrirvara.

07 febrúar 2007

Hvernig á að spara í heilbrigðiskerfinu?

Ég rakst á alveg hreint stórmerkilega síðu í dag. Síðuna á Guðrún nokkur Haraldsdóttir. Hún læknaðist af krabbameini með hjálp Guðs og gula ljóssins með smávægilegri aðstoð frá nútíma læknisfræði (lyfjameðferð og geislameðferð). Ekki nóg með það! Hún getur líka komið okkur hinum í samband við "the highest power, doctors and GOD" via internetið. Þannig hefur hún víst haft milligöngu um lækningu fjölda fólks.

Mér finnst að heilbrigðisráðherra ætti að hafa samband við þess konu. Þó að hún sé flutt til Danmerkur skiptir það engu máli þar sem að hún vinnur hvort sem er í gegnum internetið. Þetta gæti sparað stóra fjármuni. Það væri örugglega nóg að útskrifa bara einn skitinn lækni á ári og nokkra hjúkrunarfræðinga þar sem að Guðrún gæti létt alveg heilmikið undir með þessum stéttum. Svo mætti bara hætta við að byggja nýjan spítala þar sem að svo margir sjúklingar færu heim alheilbrigðir að það væri bara hægt að endurinnrétta þennan gamla. Nóg pláss.

Þar sem að ég hef grun um að heilbrigðisráðherra lesi bloggið mitt ekki, í það minnsta ekki reglulega, mæli ég með að allir fari inn á þessa síðu og skoði leiðbeiningarnar undir flipanum "Healing".

Ég ætla allavega að byrja strax....á morgun...nú fer kvefið...fyrir fullt og allt!

Ég vona bara að þessi kona geti læknað fólk sem heilbrigðisstéttum gengur illa að lækna, eins og t.d. barnaníðinga og eyðnisjúklinga. Það væri munur.

Pís át.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS